Sjaldgæfar hliðarverkanir

Tannskemmdir
Ef tannhirðu er ábótavant meðan á meðferð stendur geta tennurnar skemmst. Því miður sjást stundum hvítar skellur á yfirborði glerjungsins eftir að spangirnar eru fjarlægðar sem er merki um byrjandi tannskemmd. Þessar skellur geta gengið að hluta til baka eftir að meðferð lýkur svo fremi sem tennur eru hirtar og flúorskol notað. Best er þó að koma í veg fyrir slíkar glerjungsskemmdir með því að bursta vel, nota tannþráð og flúorskol allan meðferðartímann.

Tannholdsbólgur

Við slæma tannhirðu við tannholdsbrúnina safnast fyrir bakteríuskán við og undir tannholdið og veldur ertingu og bólgum í tannholdinu. Fyrstu einkennin eru að tannholdið fær á sig rauðan lit, í staðin fyrir heilbrigðan bleikan lit, og virðist vaxa upp meðfram tönnunum. Annað einkenni eru blæðingar úr tannholdinu við tannburstun. Yfirleitt ganga bólgurnar til baka við bætta tannhirðu en í afar sjaldgæfum tilfellum þarf að skera í burtu fyrirferðamikið tannhold.

Rótarstytting

Í einstaka tilfellum geta rætur tanna styst í meðferðinni. Sem betur fer er þetta sjaldgæft en alvarleg rótarstytting getur gert vart við sig hjá 1-3% sjúklinga en samkvæmt rannsóknum virðast langtímahorfur þessara tanna samt sem áður vera góðar. Í undantekningar tilfellum verður þó að hætta meðferð ef rótareyðing verður óeðlilega mikil. Á meðan á tannréttingameðferðinni stendur eru teknar röntgenmyndir til að fylgjast með mögulegum rótarsyttingum.

Rótardrep

Í örfáum tilfellum getur rótardrep uppgötvast á mefðferðartímanum. Í lang flestum tilvikum eru þetta tennur sem hafa orðið fyrir höggi eða slysi áður en tannrétting hófst eða á meðan á meðferð stendur. Helstu einkenni eru litabreytingar og breytt næmi tannarinnar. Rótdauðar tennur eru rótfylltar. Rótfylltar tennur er hægt að hreyfa til eftir sem áður með réttum tannréttingakröftum.