Hvernig hafa spangir áhrif á tennurnar?

Spangir valda vægum en stöðugum þrýstingi á tennurnar, sem að yfir langt tímabil færa þær til í rétta stöðu. Þar af leiðandi hafa spangirnar stöðug áhrif á tennurnar allan þann tíma sem þú ert í meðferð. Spangirnar eru settar saman úr tveimur megin einingum: kubbum sem límdir eru á tennurnar, og vír sem festur er á kubbana.

Hver kubbur er gerður úr stáli eða postulíni. Vírinn er beygður í þá stöðu sem endurspeglar bitið sem þú ættir að hafa, og sýnir þar af leiðandi í hvaða stöðu tennurnar þínar munu vera í eftir meðferð.

Áður en meðferð í tannréttingum hefst þarf að taka upphafsgögn. Teknar eru afsteypur af tönnunum, ljósmyndir og röntgenmyndir, bæði yfirlitsmyndir af kjálkum og höfði en einnig smámyndir. Þessi tími tekur u.þ.b. 1 klst. Sérþjálfað starfsfólk safnar gögnunum en greiningin er í höndum tannréttingasérfræðingsins. Þegar búið er að greina gögnin, mæla stöðu kjálka og tanna, er gerð meðferðaráætlun.

Áður en spangir eru límdar á tennurnar er mælt með því að sjúklingar fari til síns tannlæknis í hefðbundið eftirlit til að tryggja að allar tennur séu heilar. Einnig er mælt með því að sjúklingar fari áfram í reglulegt eftirlit til tannlæknisins þó svo meðferð sé hafin hjá tannréttingasérfræðingi.

Ef fjarlægja þarf tennur fyrir meðferð í tannréttingum er það yfirleitt gert 10 – 14 dögum fyrir uppsetningu spanga. Í einstaka tilfellum eru tennur fjarlægðar eftir að spangir eru límdar upp. Skrifleg beiðni varðandi tannúrdrátt er send tannlækninum og oftast fjarlægir hann þær sjálfur.

Það tekur 2 - 3 klst. að líma spangir í báða góma. Eftir að þær eru komnar á hefst hin eiginlega tannrétting. Þegar tannrétting er hafin kemur sjúklingur á stofuna til okkar í eftirlit og strekkingu á 4 – 6 vikna fresti.

Tannréttingar geta verið dýrar og er flókin meðferð. Tannréttingasérfræðingurinn stjórnar meðferðinni en góður árangur byggist á góðu samstarfi milli sjúklings og tannréttingasérfræðingsins. Til þess að meðferð gangi vel og ljúki farsællega er nauðsynlegt að sjúklingar fylgi þeim leiðbeiningum sem settar eru fyrir þá.

Tannréttingar krefjast oft notkunar á hjálpartækjum til dæmis beisli, gómplötu eða teygjum, að minnsta kosti um tíma. Ef hjálpartækin eru ekki notuð eins og skildi lengir það meðferðartímann. Ef börn eða unglingar virðast ekki tilbúin til að leggja á sig aukna vinnu t.d. við tannhirðu eða við notkun hjálpartækja er rétt að bíða með að hefjast handa.

Þegar búið er að fjarlægja spangirnar eru aftur tekin gögn s.k. lokagögn. Þessi tími er um 3 mánuðum eftir að spangirnar eru fjarlægðar en getur verið fyrr.