Spurt og svarað

Hvenær er æskilegt að fara með barnið í fyrstu tannréttingaskoðun?

Mælt er með því að börn fari í fyrstu tannréttingaskoðunina við 7 ára aldurinn. Við þann aldur er hægt að greina ýmsar tann- og bitskekkjur þó svo að barnatennur séu enn til staðar. Sum vandamál er æskilegt að leysa strax við þennan aldur t.d. þvingunarkrossbit. Flest börn eru í tannréttingum á aldrinum 9 – 14 ára, sum þurfa fyrst að fara í forréttingu áður en meðferð með spöngum hefst en sumir þurfa að bíða þar til vexti er lokið til að hefja tannréttingameðferð. Hér getur þú skoðað 6 viðmið sem gætu gefið þér vísbendingu um hvort barnið þitt þurfi tannréttingu eður ei.

Hvað orsakar tann- og bitskekkjur?

Í lang flestum tilfellum er um að ræða meðfædd vandamál. Sem dæmi má nefna þrengsli, tannvöntun, framstæði tanna og óeðlilegan vöxt kjálkabeina. Tannréttingavandamál geta einnig skapast vegna afleiðinga af slysi, fingursogsávana, ótímabærs taps á barnatönnum og sem afleiðingu af sjúkdómum (t.d. tannholdssjúkdómum).

Er ég of gamall/gömul til að fara í tannréttingu?

Nei, aldur skiptir litlu máli, en ástand tanna, heilsa tannholds og tannbeins í tanngarðinum skiptir máli. Berglind skoðar þig og getur leiðbeint þér þegar þú kemur í fyrstu skoðun. Æ fleiri fullorðnir óska eftir tannréttingu á stofunni okkar.

Er sársaukafullt að fá spangir?

Í sjálfu sér er ekki sársaukafullt að láta líma spangir á tennur. Hinsvegar geta tennurnar verið mjög aumar fyrstu dagana eftir ísetningu tækjanna. Flestir eru aumir í 3 – 5 daga. Þegar strekkt er á spöngunum, á 4 – 6 vikna fresti, geta tennurnar aftur orðið aumar í u.þ.b. sólarhring . Ef þörf er á verkjalyfjum mælum við með Íbúfeni eða Panodil. Slímhúðin innan á vörum og kinnum ásamt tungu geta orðið fyrir áreiti af tækjunum og valdið óþægindum á meðan verið er að venjast spöngum. Hægt er að setja tannréttingavax á þann kubb sem meiðir en smám saman venst slímhúðin spöngunum.

Hversu langan tíma tekur tannréttingameðferð?

Það fer eftir eðli tann- og bitskekkjunnar hversu langan tíma meðferðin tekur. Algengt er að meðferð með föstum tannréttingatækjum (spöngum/teinum) taki 1,5 – 3 ár , en lengur ef sérstaklega stendur á. Í sumum tilfellum þurfa einstaklingar forréttingu áður en hægt er að hefja tannréttingu með spöngum og lengir það heildar meðferðartímann.

Get ég haft áhrif á meðferðartímann?

Já. Góður árangur byggist á góðu samstarfi milli sjúklings og tannréttingasérfræðings. Tafir geta meðal annars orðið á meðferðinni ef:

  • Hjálpartæki (t.d. beisli og teygjur) eru ekki notuð sem skyldi.
  • Tíð bilun er á spöngum og tækjabúnaði t.d. vegna rangs mataræðis.
  • Ekki er mætt reglulega í tíma.
  • Tannhirðu er ábótavant.
  • Óvæntir sjúkdómar eða breytingar verða.
  • Tafir verða á meðferð vegna vanskila.

Hvenær á að fjarlægja tennur fyrir tannréttingu ef þess þarf?

Í sumum tilfellum þarf að fjarlægja fullorðinstennur t.d. vegna þrengsla eða til að lagfæra biti. Tennur eru yfirleitt fjarlægðar 10 – 14 dögum fyrir uppsetningu spanga. Í einstaka tilfellum eru tennur fjarlægðar eftir að spangir eru límdar upp. Skrifleg beiðni varðandi tannúrdrátt er send tannlækni sjúklingsins.

Hvað á að gera ef spangir losna eða bila?

Laga þarf laus tæki eða búnað við fyrsta hentugleika, sérstaklega ef eitthvað er að meiða, en stundum má það bíða til næsta tíma. Ef tæki eða teinar eru sífellt að brotna eða bila á meðferðartímanum getur það hægt á tannréttingunni. Hafðu samband við stofuna á opnunartíma ef mögulegt er. Ef óþægindi eru óbærileg þá tekur Berglind við símtölum utan vinnutíma í farsíma.

Á ég að fara í hefðbundna skoðun til míns tannlæknis á meðan ég er í tannréttingum?

Já, tvímælalaust. Þegar þú ert með spangir á tönnunum er erfiðara að þrífa tennurnar. Matarleifar og bakteríur sem liggja lengi á tönnunum geta skemmt þær. Mikilvægt er því að tannlæknirinn þinn fylgist vel með tönnum þínum, flúorlakki og geri við ef þörf krefur.

Get ég stundað íþróttir með spangir?

Spangir eiga ekki að stöðva þig í neinu. Í snertiíþróttum er hægt að styðjast við hlíf sem sett er á spangirnar til að vernda spangir og munnslímhúð.

Get ég spilað á blásturshljóðfæri með spangir?

Það gæti þarfnast aðlögunar til að byrja með en spangir ættu ekki að stöðva þig í að spila áfram á hljóðfærið. Við eigum til þunnar plasthlífar sem settar eru framan á spangirnar og við mælum með þeim þegar spilað er á hljóðfæri.

Hvað eru forréttingar?

Fortannréttingar eru inngrip með lausum plötum, föstum tækjum eða öðrum aðferðum sem ætlað er að koma í veg fyrir óæskilega þróun bits eða vöxt kjálka í barnatannsetti eða blönduðu tannsetti áður en tannskiptum er lokið. Slík meðferð gerir tannréttingasérfræðingi þínum kleyft að:

  • Stýra vexti kjálka sem hjálpar fullorðinstönnum að vaxa inní rétt bit
  • Stjórna breidd efri og neðri tannboga
  • Rýmka fyrir aðþrengdum tönnum og forðast jafnvel úrdrátt á fullorðinstönnum
  • Upphefja ávana sem geta haft áhrif á eðlilega þróun bitsins

Forréttingar útiloka ekki þörf á meðferð með föstum tannréttingatækjum, spöngum/teinum síðar eða þegar tannskiptum lýkur.

Hvað má ekki borða þegar maður er í tannréttingum?

Segja má að allt sem er hart og mjög seigt sé bannað á meðan á tannréttingu stendur. Helst er að nefna brjóstsykur, karamellur og kúlur. Við mælum ekki með poppkorni. Í tímanum sem spangirnar eru límdar upp er farið vel yfir mataræðið.

Er kostnaðarsamt að fara í tannréttingu?

Kostnaður er viðráðanlegur. Með hjálp sjúkratrygginga og greiðslujöfnunar er mögulegt fyrir flesta að fara í tannréttingu.

Getur tannrétting verið skaðleg?

Skaðlegar afleiðingar tannréttingameðferðar eru fátíðar, en þú getur smellt hér til að skoða þær betur.

Hvernig panta ég tíma?

Best er að hringja í okkur í síma 564-6640, eða senda vefpóst á afgreidsla@profill.is.